Kona brenndist á fæti þegar jörðin brast undan henni þar sem hún var að ganga á hverasvæði við golfvöllinn í Hveragerði um fjögurleytið í dag. Að sögn lögreglu voru tvær útlendar konur á göngu á svæðinu þegar jörðin gaf sig undir annarri þeirra með þeim afleiðingum að hún stígur með öðrum fætinum ofan í sjóðandi heitan leirhver.
Að sögn lögreglu liggur ekki fyrir hversu mikið konan brenndist á fæti, en hlífðarfatnaður sem hún var í náði að hlífa fætinum eitthvað. Hún fór hinsvegar með annan fótinn ofan í hverinn þannig að sjóðandi heitur leirinn náði upp undir hné.
Konan var flutt á sjúkrahúsið á Selfossi til aðhlynningar.
Lögreglan segir öllum hafa mátt vera það ljóst að þarna væri hættulegt að vera og segir konurnar hafa lagt sig í stórhættu með athæfi sínu.