Björgunarskipið Gunnar Friðriksson frá Ísafirði kom nú á 12. tímanum til hafnar á Ísafirði með línubátinn Ísbjörgu ÍS-69 í togi, en Ísbjörg varð vélarvana í morgun um hálfa sjómílu norðaustur af Arnarnesi í Skutulsfirði og komst sjór í vélarrúmið.
Björgunarsveitir og skip voru þegar kölluð út en einnig var haft samband við nærstaddan bát, Val ÍS-20, og hann beðinn um að koma Ísbjörgu til aðstoðar.
Þegar björgunarskipið kom að var Valur þegar kominn með Ísbjörgu í tog, en skömmu áður hafði verið komist fyrir lekann. Björgunarskipið tók við Ísbjörgu kl. 10:50 og dró til Ísafjarðar.
Ísbjörg er 6 tonna línu- og handfærabátur með tveggja manna áhöfn. Áhöfnina sakaði ekki.