Fréttavefur Princetonháskóla í Bandaríkjunum fjallar í dag um viðbrögð Íslendinga við grein Uwe Reinhardt, prófessors, sem birtist á vefnum í gær, en þar lagði Reinhardt til að Bandaríkjamenn legðu af áform um að ráðast á Íran og sprengdu Ísland í staðinn. Var greininni ætlað að sýna fram á fáránleika utanríkisstefnu Bandaríkjanna.
Sagt var frá greininni á Fréttavef Morgunblaðsins og fleiri fjölmiðlum í gærmorgun. Princetonvefurinn segir, að yfir 4000 manns hafi lesið greinina á vef Morgunblaðsins og margir bloggað um hana og tugir hafi sent Reinhardt og Princetonvefnum tölvupóst.
Haft er eftir Reinhardt, að hann hafi skrifað greinina sem gagnrýni á vilja bandarískra stjórnvalda til að sprengja Íran. „Ég var í raun að gagnrýna ný-íhaldsmennina og stríðsæsingamennina," segir hann. „Sú hugmynd, að hægt sé að ráðast með sprengjuregni á land á borð við Íran og bjarga með því heiminum er fáránleg."
En nokkrir þeirra Íslendinga, sem brugðust við grein Reinhardts, lýstu þeirri skoðun, að Bandaríkjamenn kynnu að taka ummæli prófessorsins alvarlega.
„Hvergi í heiminum er til heimskara fólk en í Bandaríkjunum," skrifaði Ólafur Skorrdal í tölvupósti til Reinhardts. „Það er aldrei að vita nema þeir taki háðsyrði þín alvarlega og telji, að gera þurfi eitthvað í málinu."
Aðrir hrósuðu Reinhardt fyrir greinina og einn benti m.a. á viðbótarröksemd fyrir því að Ísland væri ákjósanlegt skotmark, þá að allir Íslendingar tali ensku ágætlega og gætu því veitt bandarískum fjölmiðlum viðtöl án þess að notast við túlka. Hanna Björk, sem býr í Teheran, segir í tölvupósti, að hún hafi legið dátt við lestur greinarinnar en hið sorglega sé, að þar sé verið að lýsa raunveruleikanum. „Það er svo fáránlegt að lesa um stríð á Íslandi að það verður hlægilegt. En í raun er jafn fáránlegt að hefja stríð í þessum Miðausturlöndum," segir hún.
Haft er eftir Reinhardt að honum hafi þótt skemmtilegt að lesa þessa tölvupósta. En það sem þeir sýni í raun sé, að aðrar þjóðir séu hræddar við Bandaríkin. „Mér þykir hins vegar leitt, ef einhverjir Íslendingar telji að ég líti niður á þá og ég ætla að reyna að skrifa grein í íslenskt dagblað og reyna að útskýra málið," segir Reinhardt.
Reinhardt segist sjálfur vera afar hrifinn af Íslandi enda hafi hann hlustað á íslensk ævintýr lesin þegar hann var barn og oft millilent á Íslandi á leið til Evrópu.