Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, slapp ómeiddur þegar hann velti bíl sínum í grennd við Fagranes í Öxnadal um klukkan eitt í dag. Hann var einn í bílnum á ferð frá Akureyri að Löngumýri í Skagafirði á leið á fund um þjóðlendumál.
Einar mætti nokkuð seint á fundinn og þegar hann tók til máls baðst hann afsökunar á því en sagðist telja forföllin óviðráðanleg og greindi frá óhappinu og lét þess getið að hann hefði komið á fundarstað í lögreglubíl.
Lögreglan á Akureyri ók honum áleiðis en lögreglan á Sauðárkróki kom til móts við þá og flutti Einar á fundinn.
Einar var hinsvegar brattur og fékk ekki skrámu í veltunni. Mikil hálka og krapi voru á vegum fram eftir degi í Skagafirði og á Öxnadalsheiði í dag en minnkaði eftir því sem á daginn leið.