Farbann tveggja Litháa staðfest

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að tveir Litháar sæti farbanni til 2. maí. Mennirnir eru grunaðir um að hafa stolið fartölvum á Akranesi og í Reykjavík. Annar mannanna hefur hlotið dóm í Noregi vegna þjófnaður og hinn í Litháen.

Mennirnir voru handteknir 29. mars þar sem þeir voru í bíl á Kjalarnesi á leið frá Akranesi en þeir voru grunaðir um að hafa stolið tölvu í verslun í bænum. Fannst tölvan í bílnum og viðurkenndi annar maðurinn að hafa stolið henni.

Nokkrum dögum áður var tveimur tölvum stolið úr verslun í Kringlunni og á upptökum úr eftirlitsmyndavélakerfi sáust Litháarnir tveir og þriðji maður í versluninni taka tölvu úr hillu. Annar þeirra játaði að hafa verið að verki.

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að mennirnir hafi dvalið á landinu nokkrar vikur, hafi ekki atvinnu hér og eigi ekki ættingja á Íslandi. Lögregla fór fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum en á það féllst dómari ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert