Handmokuðu veginn yfir Hrafnseyrarheiði

Forráðamenn skólabarna, sem dvöldu í norðanverðum í Arnarfirði um páskana, tóku til sinna ráða þegar koma þurfti börnunum yfir Hrafnseyrarheiði í gær og handmokuðu í gegnum 20 metra skafl. Vegagerðin hafði ákveðið að moka ekki heiðina vegna veðurs og snjóflóðahættu en að því er fram kemur á Þingeyrarvefnum reyndust upplýsingarnar ekki réttar þegar að var gáð.

Í fyrradag var leiðindaveður á heiðinni og hafði snjóað í suðvestanátt fram undir kvöld en þá breytti um vindátt og stytti upp. „Þegar heiðin var skoðuð í gærmorgun, af fólki sem þurfti að koma börnum sínum yfir, kom í ljós að lítil sem engin snjósöfnun var í hlíðum og þar af leiðandi ekki mikil hætta á snjóflóðum. Heiðin var fær jeppum beggja vegna að einum skafli undanskildum, um 20 metra löngum“, segir í frétt á thingeyri.is.

„Snjóruðningstæki er staðsett neðan til í heiðinni norðanverðri og var ákveðið að athuga hvort hægt væri að fá það til að koma upp og hreinsa skaflinn og þannig auðvelda fólkinu að komast. Það væri um það bil 20 mín. verk að keyra upp og opna. Þegar haft var samband við Vegagerðina á Ísafirði var svarið ósköp einfalt: Nei, við tókum ákvörðun í morgun um að moka ekki og þeirri ákvörðun verður ekki breytt.

Þá var ekki um annað að ræða en að taka fram skóflu og handmoka skaflinn. Tók verkið um eina klst. og var það ekki letjandi að horfa á moksturstækið standa aðgerðarlaust aðeins neðar í heiðinni," segir á Þingeyrarvefnum.

Þingeyrarvefurinn

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert