Íslendingar telja að þeir verði hálf milljón árið 2050

Íslendingar telja sjálfir, að þeir verði orðnir fleiri en hálf milljón árið 2050. Þetta er meðal niðurstaðna nýrrar Capacent Gallup könnunar á framtíðarviðhorfum Íslendinga fyrir SA. Til að þetta gangi eftir þarf íbúafjöldi höfuðborgarsvæðisins að tvöfaldast.

Samtök atvinnulífsins eru heldur hógværari og telja í nýrri mannfjöldaspá að Íslendingar verði um 400 þúsund árið 2050. Til að sú spá gangi eftir þurfa fleiri að flytja til landsins en frá því næstu áratugina þannig að á landinu verði um 40 þúsund manns af erlendu bergi brotnir árið 2050 eða um 10% íbúa.

Samkvæmt spánni verða Íslendingar 80 ára og eldri um 45 þúsund árið 2050 en þeir eru 9 þúsund í dag. Samkvæmt mannfjöldaspá Sameinuðu þjóðanna verða Íslendingar 355 þúsund árið 2050.

Samtök atvinnulífsins fengu Capacent Gallup til þess að spyrja almenning annars vegar og hóp áhrifafólks í þjóðfélaginu hins vegar að því hver þeir teldu að íbúafjöldi Íslands yrði árið 2050. Almenningur telur að íbúafjöldinn verði 533 þúsund en hópur áhrifafólks að hann verði tæp 500 þúsund. Báðir hóparnir gera þannig ráð fyrir að íbúum fjölgi mun meira en spár gera ráð fyrir.

Nú eru Íslendingar 65 ára og eldri tæplega 34 þúsund en verða um 110 þúsund árið 2050 og hefur þá fjöldi þeirra meira en þrefaldast á tímabilinu, samkvæmt mannfjöldaspá SA. Íslendingar 80 ára og eldri eru nú rúmlega níu þúsund en verða um 45 þúsund 2050. Þessi fjölgun eldri borgara krefst þess að stefna í málefnum aldraðra verði mótuð til lengri tíma en sem nemur fjögurra ára kjörtímabilum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert