Jóhannes Gijsen, Reykjavíkurbiskup, fulltrúi kaþólsku kirkjunnar á Íslandi og Helga Jónsdóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, skrifðuðu í dag undir kaupsamning um kaup kirkjunnar á íbúðarhúsinu að Kollaleiru í Reyðarfirði til þess að setja þar á stofn kaþólskt klaustur og prestakall sem á að heita Þorlákssókn til heiðurs Þorláki biskupi helga Þórhallssyni.
Forsvarsmenn kirkjunnar gera ráð fyrir að starfsemi hefjist að Kollaleiru strax með vorinu.
Það eru kapúsínar eða hettumunkar sem ætla að stofna klaustrið, sem verður það fyrsta hér á landi frá siðaskiptum. Tveir munkar frá Slóveníu hafa stundað nám í íslensku við Háskóla Íslands undanfarin misseri til undirbúnings starfi sínu hér. Það eru þeir séra Davíð Tencer, sem verður sóknarprestur í sókninni, og reglubróðir hans, séra Anton Majercak. Þá mun brátt von á þriðja munkunum og ef til vill fleiri þegar fram líða stundir. Munkarnir munu fljótlega ráðast í nauðsynlegar breytingar á húsnæðinu og innréttingum svo þær henti safnaðarstarfinu.
Kapúsínar eru eftirmenn heilags Frans frá Assisisem stundum er kallaður „heilagi fátæklingurinn". Heiti reglunnar er dregið af háu, toppmynduðu hettunum sem þeir bera yfir kastaníubrúnu kuflunum sínum. Reglan var stofnuð á Ítalíu í upphafi 16. aldar og nú eru um 12.000 munkar í þessari Fransiskusreglu sem er sögð ströngust allra slíkra reglna.
Munkar í kapúsínareglunni vilja vera raunverulegir munkar. Það merkir að þeir helga sig hugleiðingu og boðun fagnaðarerindisins, lifa í samfélögum og iðka fátækt. Þeir leggja stund á handavinnu, sjá um fátæka og sjúka og prédika. Þeir taka öllum með opnum huga, sérstaklega börnum og þeim sem hafast við á jaðri samfélagsins. Munkana einkennir einfaldleiki, glaðværð og innilegur kærleikur til Krists.