Eftir Höllu Gunnarsdóttur halla@mbl.is Stærstu íþróttahallir Reykjavíkurborgar verða lagðar undir stjórnmálastarf um helgina þegar Samfylkingin heldur landsfund sinn í Egilshöll og Sjálfstæðisflokkurinn kemur saman í Laugardalshöll í sama tilgangi.
Ekki er búist við dramatískum átökum á þessum fundum og ekkert sem bendir til annars en að formenn og varaformenn beggja flokkanna verði áfram starfandi eftir helgi, enda stutt í kosningar og málefnastarf í forgrunni.
Sextán ályktanir liggja fyrir
Fundur Sjálfstæðisflokksins hefst með formlegri setningarathöfn kl. 17.30 á fimmtudag og við það tækifæri flytur Geir H. Haarde, formaður flokksins, ræðu. Að kvöldi koma konur sem sækja landsfundinn saman í kvöldverð á vegum Landssambands sjálfstæðiskvenna. Nú þegar liggja sextán ályktanir fyrir fundinum og nítján starfshópar verða starfandi, m.a. landbúnaðarnefnd, velferðarnefnd, utanríkismálanefnd, nefnd um umhverfismál og auðlindanýtingu og réttarfars- og stjórnskipunarnefnd. Starfshóparnir funda á föstudag og laugardag og ályktanir verða afgreiddar þessa sömu daga.
Á föstudag verður jafnframt fyrirspurnartími þar sem ráðherrar flokksins sitja fyrir svörum landsfundarfulltrúa. Fundinum lýkur svo á sunnudag með ræðu formanns flokksins strax á eftir formanns- og varaformannskjöri.
Norrænir gestir flytja ávörp
Landsfundur Samfylkingarinnar hefst á föstudag með fundi sveitarstjórnarráðs Samfylkingarinnar og málefnavinnu níu starfshópa. Þeir taka m.a. á byggðamálum, kynjajafnrétti og kvenfrelsi, málefnum aldraðra, velferðarmálum, menntamálum og atvinnu- og umhverfismálum. Setningarathöfnin fer svo fram kl. 16 en þá flytur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, ræðu auk þess sem erlendir gestir ávarpa fundinn en það eru þær Mona Sahlin, formaður sænska jafnaðarmannaflokksins, og Helle Thorning-Schmidt, formaður danska jafnaðarmannaflokksins.
Að morgni laugardags kynna starfshópar niðurstöður sínar og í framhaldinu er málþing undir yfirskriftinni Auður Íslands – framtíðarsýn. Síðar um daginn verður pallborð þar sem "horft er til framtíðar" en fundi verður slitið kl. 18 að loknu kjöri formanns og varaformanns.
Báðir flokkar halda landsfundarhóf á laugardagskvöldið. Sjálfstæðismenn koma saman til kvöldverðar og dansleiks í Broadway en samfylkingarfólk heldur lokahóf á Grand hóteli.