Umhverfisstofnun fær viðurkenningu fyrir sjálfboðastarf í þjóðgörðum

Ellý Katrín Guðmundsdóttir tekur við viðurkenningunni úr hendi Alp Mehmet. …
Ellý Katrín Guðmundsdóttir tekur við viðurkenningunni úr hendi Alp Mehmet. Á myndinni er einnig Nicole Michelangeli, sendiherra Frakklands á Íslandi.

Alp Mehmet, sendiherra Breta á Íslandi, afhenti í gær Umhverfisstofnun, svonefnt Green Heroes Award, sem er viðurkenning bresku sjálboðaliðasamtakanna BTCV á alþjóðasvæði sínu. Í máli sendiherrans kom fram að viðurkenning samtakanna sé mikils metin í Bretlandi og aðeins veitt þeim sem hafa vakið alþjóðlega athygli fyrir starf sitt.

Ellý Katrín Guðmundsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, veitti viðurkenningunni viðtöku fyrir hönd stofnunarinnar en umsjónarmaður sjálfboðaliðastarfsins er Chas Goemans. Ellý Katrín sagði af þessu tilefni að viðurkenningin væri fyrst og fremst staðfesting á því góða og mikla starfi sem Chas Goemans og Árni Bragason fyrrverandi forstöðumaður Náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar hefðu unnið með sínu fólki á undanförnum árum.

Viðurkenningin var veitt í hófi sem sendiráð Bretlands og Frakklands héldu til að fagna samstarfi um málþing um loftslagsmál sem haldið var í Háskóla Íslands síðdegis í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka