Vinstri grænir kynna Græna framtíð

Vinstrihreyfingin - grænt framboð kynnti í dag rit flokksins um sjálfbæra þróun á Íslandi, en það ber yfirskriftina Græn framtíð. Fram kemur í formála ritsins að nú liggi fyrir stefnumörkun flokksins til næstu ára um sjálfbæra þróun jafnframt því sem skyggnst sé lengra fram á veg.

Einnig kemur fram að sjálfbær þróun snerti allt samfélagið og snúist um siðferðilega afstöðu stjórnvalda og almennings til samfélags og umhverfis. Sjálfbær þróun sé mikilvægasta verkefni sem stjórnvöld og almenningur beri sameiginlega ábyrgð á.

„Umhverfisstefna Vinstri–grænna byggist á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Í skýrslu Brundtlandnefndarinnar: Sameiginleg framtíð vor (Our Common Future), sem gefin var út árið 1987, var sjálfbær þróun skilgreind á eftirfarandi hátt: Sjálfbær er sú þróun sem gerir okkur kleift að mæta þörfum okkar án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum. Þessi skilgreining hefur síðan verið útvíkkuð og dýpkuð í alþjóðlegri umhverfis- og heimspekiumræðu þannig að nú er hún einnig talin ná yfir rétt náttúrunnar og lífríkisins til að þróast á eigin forsendum. Sjálfbær þróun er mun dýpra hugtak en svo að það nái einungis til umhverfismála,“ segir í formála ritsins sem þær Katrín Jakobsdóttir og Kolbrún Halldórsdóttir skrifa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert