Bíll með ökumanni og farþega innanborðs var ekið á tvö hross í grennd við Hvammstanga um miðnætti í gær. Hrossin hlutu það alvarlegan skaða að aflífa þurfti bæði.
Að sögn lögreglunnar á Blönduósi voru tildrögin þannig að hrossastóð hafði sloppið út úr girðingu og voru eigendurnir að reka stóðið til baka og gerði viðeigandi öryggisráðstafanir gagnvart aðvífandi bílaumferð.
Þó fór það svo að einn ökumaður tók ekki eftir aðvörunarljósum frá bílum hestafólksins og lenti á hrossunum tveim. Varð það harður árekstur og mildi að ekki skyldi fara verr.