Björgunarsveitir leita að týndum sjómanni

Að sögn Landsbjargar stendur yfir leit björgunarsveita að sjómanni sem saknað er eftir að bátur hans fannst mannlaus í stórgrýti í fjöru austan megin í Vopnafirði.

Fyrr í gærkvöldi hófst eftirgrennslan eftir bátnum að beiðni Vaktstöðvar siglinga þar sem ekki náðist fjarskiptasamband við hann. Björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Sveinbjörn Sveinsson frá Vopnafirði, var kallað út og fann það bátinn klukkan 23:15, mitt á milli Kattárvíkur og Fles út af Kollamúla í Vopnafirði. Nokkuð erfiðlega gekk að komast að bátnum en nokkru eftir miðnætti kom í ljós að strandaði báturinn var mannlaus.

10 björgunarsveitir hafa verið boðaðar til leitar á landi og sjó og verða björgunarskip, vélsleðar og göngufólk notað við hana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert