Geir: Eðlilegt að ríkið tryggi öllum lágmarkslífeyri úr lífeyrissjóði

Geir H. Haarde flytur setningarræðu sína í Laugardalshöll í kvöld.
Geir H. Haarde flytur setningarræðu sína í Laugardalshöll í kvöld. mbl.is/Golli

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í setningarræðu á 37. landsfundi flokksins nú undir kvöld, að hann telji eðlilegt að að ríkið tryggi öllum lágmarkslífeyri frá lífeyrissjóði, t.d. 25 þúsund krónur á mánuði, til hliðar við greiðslur úr almannatryggingakerfinu. Þannig verði komið til móts við þá, sem ekki hafa getað aflað sér neinna eða einungis smávægilegra réttinda til greiðslna úr lífeyrissjóðum.

Þá sagðist Geir vilja beita sér fyrir því að minnka sem fyrst hinar almennu skerðingar í almannatryggingakerfinu úr um 40% í 35% og að þeir sem orðnir eru sjötugir geti unnið launaða vinnu, ef þeir vilja, án þess að launin skerði lífeyri frá Tryggingastofnun. Sagði Geir, að slík breyting ætti ekki að kalla á kröfur frá öðrum því þessir einstaklingar hafi þegar skilað sínu framlagi til þjóðfélagsins. Sagði hann að með slíkum grundvallarbreytingum, sem Sjálfstæðisflokkurinn vildi beita sér fyrir, væri hægt að stýra kjarabótum sérstaklega til þess þriðjungs aldraðra sem lakast eru settir.

Kaupmáttur aukist um 60% frá 1995
Geir fjallaði um efnahagsmál í ræðu sinni og sagði m.a. að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna hefði aukist um 60% frá árinu 1995 og á sama tíma hafi skuldir ríkissjóðs verið greiddar niður þannig að hann megi heita skuldlaus. Af þessari kaupmáttaraukningu hafi tæp 20% komið til á yfirstandandi kjörtímabili.

Sagði Geir að stjórnarandstaðan hefði nú gefist upp á að halda á lofti óréttmætum sjónarmiðum um skattahækkanir og aukinn ójöfnuð í íslensku samfélagi en í þess stað væri komin ný tilraun til útúrsnúninga: því væri nú haldið fram fullum fetum að svokölluð hagstjórnarmistök ríkisstjórnarinnar kosti hvert heimili hundruð þúsunda króna á ári í formi verðbólgu og hárra vaxta.

„Lítum aðeins á þetta. Stjórn peningamála hér á landi miðar að því að halda verðbólgu í skefjum. Það er ekki að ástæðulausu því verðbólga skerðir kjör almennings. Það þekkja þeir best sem muna valdatíma vinstri stjórna. En þetta er þó aðeins hálfur sannleikur sem ætlað er að slá ryki í augu fólks. Það sem mestu máli skiptir, og stjórnarandstaðan kýs vitanlega að nefna ekki, er að kostnaður vegna verðbólgu og vaxta er auðvitað tekinn með í reikninginn þegar kaupmáttur ráðstöfunartekna er reiknaður og það er algjörlega óumdeilt að ráðstöfunartekjur heimilanna hafa aukist meira en dæmi eru um. Tekjurnar hafa einfaldlega aukist meira en útgjöldin. Þetta tal um hagstjórnarmistök er því innantómt, þótt vissulega hafi þenslan hér af ýmsum ástæðum orðið meiri en ætlað var.

Er 60% kaupmáttaraukning almennings frá 1995 „hagstjórnarmistök"? Er stórfelld niðurgreiðsla skulda ríkissjóðs „hagstjórnarmistök”? Er full atvinna „hagstjórnarmistök"? Er 4,5 % hagvöxtur á ári að meðaltali „hagstjórnarmistök"? En ef mesta framfaraskeið hagsögunnar endurspeglar mistök í hagstjórn, skulum við sjálfstæðismenn fúslega gangast við þeim. Nei, góðir fundarmenn. Stóru hagstjórnarmistökin yrðu þau, að Vinstri grænir og Samfylking tækju hér við stjórn efnahagsmála," sagði Geir.

Hann sagði að sjálfstæðismenn myndu ekki taka þátt í loforðakapphlaupi vinstri flokkanna og bætti við, að í sjónvarpsumræðum sl. mánudag hefði andstæðingum flokksins tekist, að setja fram fyrirheit um aukin ríkisútgjöld upp á 100 milljarða króna á aðeins tveimur mínútum. „Ég hygg að þetta séu dýrustu mínútur í sögu sjónvarps á Íslandi og þótt víðar væri leitað," sagði Geir.

Íslendingar tapa forskoti ef framþróun verður stöðvuð
Hann fjallaði einnig í ræðu sinni um orkumál og sagði að Íslendingar byggju við einstakar aðstæður sem gerði þeim kleift að beisla endurnýjanlegar orkulindir í ríkari mæli en aðrar þjóðir. En grundvöllur þeirrar nýtingar væri þekking og hugvit. Í því væri forskot Íslendinga falið og þar liggi möguleikarnir til að hafa jákvæð áhrif á umhverfismál víðar en hér á landi.

„Við búum yfir sérþekkingu á þessu sviði sem aðrar þjóðir sækjast eftir og er nú þegar orðin útflutningsvara. Orkufyrirtækin eru leiðandi þekkingarfyrirtæki í alþjóðlegum samanburði og sérþekking þeirra mun nýtast í baráttunni við loftslagsmengun. Fái þeir að ráða sem vilja stöðva eða fresta framþróun á vegum íslenskra orkufyrirtækja sem eru leiðandi á sviði endurnýjanlegra orkugjafa ráðið, munum við Íslendingar einfaldlega tapa því forskoti sem við höfum á þessu sviði," sagði Geir.

Setningarræða Geirs H. Haarde

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert