Stjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkti í dag, að í tillögu að aðalskipulagi fyrir sveitarfélagið, sem nú er unnið að, verði frestað skipulagningu þeirra svæða sem ætluð hafa verið fyrir Skatastaða- og Villinganesvirkjanir.
Tillagan var samþykkt með atkvæðum fulltrúa Framsóknarflokks og Samfylkingar, sem eru í meirihluta, og einnig með atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks en fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs sat hjá.
Í tilkynningu frá sveitarfélaginu segir, að um árabil hafi verið ágreiningur um hvernig fara skuli með hugmyndir um virkjanir og aðra nýtingu virkjanasvæða í aðalskipulagi fyrir sveitarfélagið. Frá því að meirihluti Framsóknarflokks og Samfylkingar tók við stjórn sveitarfélagsins hafi verið unnið að tillögu er sátt gæti náðst um. Markmið tillögunnar, sem lögð var fram í dag og samþykkt, hafi verið að ná sátt um aðalskipulagstillögu svo hún nái fram að ganga ásamt því að koma á framfæri kröfu Skagfirðinga um nýtingarrétt á auðlindum.
Fram kemur í greinargerð með tillögunni, að fram hafi komið nýjar hugmyndir sem nú sé unnið að rannsóknum á, sem geri ráð fyrir breyttri hönnun mögulegra virkjana í Skagafirði. Þær hugmyndir, ef af yrði, þýði mun minni áhrif á náttúru og ferðaþjónustu á svæðinu. Verði þessar hugmyndir að veruleika sé horft til þess að hvorug virkjunin verði virkjuð samkvæmt núverandi útfærslum.
Tryggja verði að nýtingarréttur á umræddum svæðum verði í höndum Skagfirðinga og einungis valdir þeir kostir sem efla atvinnu og mannlíf innan héraðs. Þá sé það vilji meirihlutans, að unnið verði að því að nýtingarréttur jökulánna verði alfarið í höndum heimamanna og tekið undir þá hugmynd að eignarhald Héraðsvatna hf verði alfarið í höndum Skagfirðinga. Frestun skipulagningar á umræddum svæðum styður við baráttu heimamanna fyrir nýtingarréttinum á vatnasvæðinu í heild.