Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) segir aðgengi fyrir slökkvibíla ekki vera nægjanlega gott í miðborginni. Í gærkvöldi var slökkviliðið kallað út að Ránargötu vegna spilliefnaleka. Að sögn SHS var ástandið í miðborginni það slæmt í gær að þegar slökkvibifreið ætlaði að beygja inn Ránargötu frá Ægisgötu, sem er akstursstefnan, þá komst hún ekki sökum þess að búið var að leggja bifreiðum beggja vegna við götuna. Öðru megin á hinsvegar að vera autt.
Slökkviliðið reyndi þá að fara hina leiðina, þ.e. á móti einstefnunni, en þá þurfti það að bíða eftir tveimur bifreiðum. Að sögn SHS tók þetta allt mjög langan tíma. Tekið skal fram að útkallið í gær reyndist ekki vera alvarlegt en slökkviliðið bendir á að þeim hefði ekki litist á blikuna hefði útkallið verið alvarlegra, t.d. brunaútkall enda mikið af gömlum húsum á svæðinu.
SHS vill koma því á framfæri að fólk sem er búsett í miðborginni, eða á þar leið um, að huga að því hvar og hvernig það leggur bílunum sínum. Enda vilji fólk ekki hafa það á samviskunni að slökkviliðið komist ekki leiðar sinnar hratt og örugglega. Það segist hafa vakið athygli lögreglu vegna málsins.