Árvakur hefur keypt allt hlutafé í Ári og degi, útgáfufélagi Blaðsins, og verður starfsemin sameinuð undir merkjum Árvakurs. Seljendur eru Karl Garðarsson, Sigurður G. Guðjónsson og Steinn Kári Ragnarsson, auk smærri hluthafa. Kaupverð er ekki gefið upp.
Í tilkynningu segir, að við kaupin verði Árvakur fjölmiðlafyrirtæki með öflugasta áskriftarblaðið, fríblað í mestu dreifingu á landinu og langöflugasta fréttavefmiðilinn. Samtals nái Árvakur þannig til um 85% þjóðarinnar með frétta- og afþreyingarmiðlun.
Kaupin voru tilkynnt starfsmönnum Árvakurs og Árs og dags í dag og sagði Einar Sigurðsson, forstjóri Árvakur, að kaupin væru mjög mikilvægt skref í áframhaldandi þróun félagsins.
„Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, býr að hartnær aldarreynslu í blaða- og netútgáfu og hefur á að skipa mjög öflugu liðið á öllum sviðum útgáfu, prentunar og dreifingar blaða og netmiðla", sagði Einar í dag.
„Fyrir einu og hálfu ári gengum við til liðs við þann harðsnúna hóp sem kom Blaðinu á laggirnar og höfum síðan átt helmingshlut í Ári og degi. Það er mikilvægt fyrir Árvakur að eiga sterka stöðu á fríblaðamarkaði. Blaðið hefur nú fest sig rækilega í sessi og við ætlum að styrkja rekstur þess enn með þessari sameiningu."
Karl Garðarsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Árs og dags verður útgáfustjóri prentmiðla Árvakurs og vinnur að rekstrarlegri samlegð í útgáfustarfsemi. Steinn Kári Ragnarsson, sem verið hefur auglýsingastjóri Blaðsins mun sinna því starfi áfram auk þess að taka virkan þátt í að byggja upp nýtt sölu- og markaðskerfi Árvakurs. Til stendur að nýtt skipurit Árvakurs verði kynnt á aðalfundi í maí.