Breytt Flugstöð Leifs Eiríkssonar opnuð

Úr breyttri Leifsstöð.
Úr breyttri Leifsstöð.

Breytingar, sem unnið hefur verið að á Flugstöð Leifs Eiríkssonar að undanförnu, voru kynntar í dag á 20 ára afmæli flugstöðvarinnar. Framkvæmdir við núverandi áfanga stækkunar og breytinga í norðurbyggingu flugstöðvarinnar hófust í október 2005 og þeim lýkur í júní. Er gólfflötur allrar flugstöðvarinnar nú samanlagt orðinn um 56.000 fermetrar, sem er álíka og 8 knattspyrnuvellir.

Þegar hafist var handa við stækkun svokallaðrar norðurbyggingar árið 2003 var hún alls um 22.000 fermetrar. Nú er norðurbyggingin orðin 39.000 fermetrar og stækkun hennar jafngildir allri suðurbyggingu flugstöðvarinnar. Að auki var unnið að umfangsmiklum endurbótum á alls um 13.000 fermetrum á 1., 2. og 3. hæð norðurbyggingarinnar.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar var upphaflega tekin í notkun 14. apríl 1987 og fyrstu farþegarnir fóru um hana að morgni næsta dags. Þegar fyrsta skóflustungan var tekin að nýrri flugstöð árið 1983 fóru um 460 þúsund farþegar um þáverandi flugstöð. Árið 2006 fóru 2 milljónir farþega um flugstöðina og gert er ráð fyrir að farþegafjöldinn verði kominn í 3,2 milljónir árið 2015.

Eftir breytingarnar mun brottfararsvæðið tæplega þrefaldast að stærð og þjónusta við farþega og aðra gesti flugstöðvarinnar, á sviði verslunar, veitinga, afþreyingar og almennrar afgreiðslu, eykst til muna, að sögn Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ehf. Segir fyrirtækið, að þá verði aðstaða og þjónusta við farþega orðin sambærileg við það sem best þekkist í þeim efnum í flugstöðvum erlendis.

Meðal breytinga er að tekið hefur verið í notkun fullkomið farangursflokkunarkerfi sem tengist nýjum færiböndum í komusal farþega. Flokkunarkerfið er alsjálfvirkt og ræður við að afgreiða samtímis farþega úr 26 flugvélum. Nýja flokkunarkerfið kostar um hálfan milljarð króna og þrefaldar afköst frá því sem áður var við að flokka og gegnumlýsa farangur.

Þá hefur fjölda innritunarborða hefur verið bætt við á 1. hæð. Alls eru nú í notkun 43 innritunarborð en voru 25 áður. Auk þess hafa 8 sjálfsafgreiðslustöðvar verið teknar í gagnið fyrir farþega að innrita sig í flug og 8 slíkar stöðvar til viðbótar verða teknar í gagnið áður en sumarannir hefjast í ár.

Kostnaður við framkvæmdir og stækkun norðurbyggingar frá upphafi er alls um 7 milljarðar króna. Framkvæmdirnar eru annars vegar fjármagnaðar með lánsfé og hins vegar með fjármunum úr rekstri félagsins en fjármunamyndun rekstrar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf.

Verklokin í júní eru í samræmi við upphaflega áætlun og kostnaðaráætlun hefur staðist sömuleiðis. Verktaki er Ístak hf. og fjöldi undirverktaka hefur komið að tilteknum verkþáttum.

Úr Leifsstöð.
Úr Leifsstöð.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert