Lekandatilfellum fjölgar

Alls greindist 31 einstaklingur með lekanda á sýklafræðideild Landspítala-háskólasjúkrahúss á árinu 2006 og er það mikil aukning frá árinu 2005. Þetta kemur fram í Farsóttafréttum landlæknisembættisins.

Sýkingin greinist oftast í aldurshópnum 20–24 og eru karlmenn í meirihluta. Langflestir sem greinast eru frá höfuðborgarsvæðinu, en 26 eru með skráða búsetu þar, þrír á Akranesi, einn frá Suðurlandi og einn frá Austurlandi.

Flestir (26) komu til greiningar og meðferðar á húð- og kynsjúkdómadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss, sem einnig annast rakningu smitleiða. Rakning smitleiða er mikilvæg til að rjúfa þessar leiðir, en þá er haft samband við þá sem gætu hafa orðið fyrir smiti og hugsanleg sýking meðhöndluð.

Fram kemur að svo virðist sem meirihluti smitaðra hafi smitast á Íslandi og er það nýmæli miðað við fyrri ár þegar nánast allt lekandasmit átti uppruna sinn erlendis.

Helstu einkenni lekanda eru sviði og útferð frá þvagrás og kynfærum, en ítrekað skal að konur eru oftar einkennalausar af sýkingunni en karlar. Lekandasýking getur valdið alvarlegum sýkingum og borist út í blóðið. Auk þess er ófrjósemi þekktur fylgikvilli sýkingarinnar, einkum hjá konum. Það er því mikilvægt að hafa samband við lækni þegar grunur er um sýkingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka