Siv Friðleifsdóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað nefnd til að endurskoða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og mögulega tilfærslu verkefna sem tengjast málefnum aldraðra.
Nefndinni er ætlað að fara yfir og skilgreina verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í öldrunarmálum og skýra betur ábyrgð við uppbyggingu og skipulag öldrunarþjónustunnar og við önnur verkefni sem tengjast öldruðum. Hún á að skila áliti fyrir 1. desember nk.
Formaður nefndarinnar er Orri Hlöðversson, fyrrum bæjarstjóri í Hveragerði. Aðrir nefndarmenn eru: Vilborg Ingólfsdóttir, Vilborg Þ. Hauksdóttir, Eyþór Benediktsson, Stefanía Traustadóttir og Kristján Oddsson. Fulltrúi Landssambands eldri borgara í nefndinni er Hjörtur Þórarinsson, formaður FEB á Selfossi. Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga í nefndinni eru: Hanna Birna Kristjánsdóttir, Guðmundur R. Gíslason og Rún Halldórsdóttir.