Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu, að íslenska ríkið sé skaðabótaskylt gagnvart fólksflutningafyrirtækinu Hópbílaleigunni vegna missis hagnaðar, sem fyrirtækið hefði notið, ef Vegagerðin hefði ekki ákveðið að hafna tilboðum Hópbílaleigunnar í sérleyfisakstur og skólaakstur á Suðurlandi og Suðurnesjum.
Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu, að ekkert hafi komið fram um að Hópbílaleigan hafi ekki uppfyllt þau skilyrði um fjárhagslegt og tæknilegt hæfi sem fólust í útboðsgögnum um aksturinn á Suðurlandi og Suðurnesjum. Hafi fyrirtækið verið með hagstæðasta tilboðið og hafi Vegagerðinni verið óheimilt að hafna tilboði þess á þeim forsendum að það hefði ekki fjárhagslega og tæknilega burði til að standa við tilboðið. Því hafi ákvörðun Vegagerðarinnar brotið gegn ákvæðum laga um útboð.