Vilja að Landsvirkjun hætti undirbúningi að stórvirkjunum

Flokksstjórn Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs hefur sent formönnum stjórnarflokkanna, fjármálaráðherra og forstjóra Landsvirkjunar bréf, þar sem þeim eindregnu tilmælum er beint til þeirra að öllum undirbúningi og hvers kyns aðgerðum er tengjast stórvirkjunum og uppbyggingu frekari stóriðju verði hætt.

Í bréfinu segir, að það sé krafa stjórnar VG að ekkert verði frekar aðhafst og að engar ákvarðanir teknar á þessu sviði fram yfir kosningar til Alþingis 12. maí nk. og þar til nýr þingmeirihluti og ný ríkisstjórn hefur tekið til starfa.

Í bréfinu segir að andstaða almennings við ríkjandi stjórnarstefnu hafi ítrekað birst með skýrum hætti að undanförnu, m.a. í niðurstöðu íbúakosningar í Hafnarfirði um stækkun álvers í Straumsvík og stuðningi tæplega 60% þeirra sem afstöðu tóku í nýlegri skoðanakönnun við að gera hlé á frekari stóriðjuframkvæmdum næstu fimm ár.

„Við núverandi aðstæður og með vísan til ofangreinds rökstuðnings telur flokksstjórn VG það vera lýðræðislega og sanngjarna kröfu að fram yfir kosningar verði ekkert það aðhafst í þessum efnum sem bundið gæti hendur næsta þings og næstu stjórnar frekar en orðið er um leið og tryggt yrði að engar ögrandi aðgerðir ryfu eðlilega friðarskyldu um umdeilt mál á lokaspretti kosningabaráttunnar," segir í bréfinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert