Í kjölfar þess að meðferðarheimilið Götusmiðjan flyst á Efri-Brú í Grafningi verður skipt um nafn á staðnum. Fram kemur í Sunnlenska að ástæðan er sú að Guðmundi Tý Þórarinssyni, framkvæmdastjóra Götusmiðjunnar, er oft ruglað saman við hinn umdeilda Guðmund Jónsson, fyrrverandi forstöðumann Byrgisins, sem áður bjó á Efri-Brú.
„Við erum nafnar, þekktir fyrir rekstur meðferðarheimila og báðir með sítt hár. Er nema von að okkur sé stundum ruglað saman? Það er ekki á þetta bætandi að ætla líka vera kenndur við fyrrverandi heimili Guðmundar í Byrginu í ljósi fortíðar hans,” segir Guðmundur Týr Þórarinsson, betur þekktur sem Mummi í Götusmiðjunni, í samtali við Sunnlenska.
Hann segir að sennilega verði Efri-Brú gefið nafn úr ásatrú. „Til dæmis þykir mér nafnið Ásgarður segja allt sem segja þarf um litlu hetjurnar sem eru í meðferð hjá okkur,” segir hann.
Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps gaf grænt ljós á nafnabreytingu á fundi með Guðmundi Tý nýverið, að hans sögn.