Grænfriðungar og félagasamtök sem hafa það á stefnuskrá sinni að vernda hvalastofninn héldu ráðstefnu í New York í gær og fyrradag og sótti Árni Finnsson fundinn fyrir hönd Náttúruverndarsamtaka Íslands. Sir Geoffrey Palmer fyrrum forsætisráðherra Nýja Sjálands var fundarstjóri.
Um sextíu manns frá öllum heimsálfum sóttu ráðstefnuna og ræddu hvernig leysa mætti þann hnút sem umræðan í Alþjóðahvalveiðiráðinu er komin í.
Ráðstefnan var haldin í boði Umhverfisstofnunar Sameinuðu Þjóðanna í húsi Sameinuðu Þjóðanna á Manhattan-eyju í New York. „Það voru allir sammála um að þetta væri mjög góð umræða, hvernig við getum fundið leiðir út úr þeim ógöngum sem Hvalveiðiráðið er komið í, það var margt forvitnilegt sem kom fram," sagði Árni í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.
Árni sagði enga endanlega niðurstöðu vera að hafa af fundinum, verið væri að vinna ályktun sem birt verður síðar.
Hann sagði að í megindráttum hefði verið ákveðið að taka umræðuna um hvalveiðar upp á fleiri stöðum en í Alþjóða hvalveiðiráðinu til að hún verði ekki eins einangruð á þeim vettvangi og raun ber vitni í dag.