Í ályktun um sjávarútvegsmál, sem samþykkt var á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag, segir að eðlilegt sé að veiðar sjávarspendýra falli undir sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins. Mikilvægur áfangi hafi náðst þegar hvalveiðar í atvinnuskyni hófust á ný á síðasta ári.
Þá segir í ályktuninni, að helstu hvalastofnar við landið séu stórir og samkvæmt rannsóknum Hafrannsóknastofnunar hafi hvalir töluverð áhrif á stærð helstu nytjastofna. Enda þótt hvalveiðar séu umdeildar sé mikilvægt, að Íslendingar nýti hvali eins og aðrar auðlindir sjávar á ábyrgan hátt.
Þessi tillögutexti er óbreyttur frá þeim drögum, sem lágu fyrir fundinum. Fram kom í máli Arnars Sigurmundssonar, formanns starfshóps landsfundarins um sjávarútvegsmál, að á fundi starfshópsins kom fram tillaga um að bæta við, að nýting hvala verði í sátt við aðrar þjóðir og aðra hagsmuni en sú tillaga var felld með öllum greiddum atkvæðum.