Níu konum sagt upp hjá Kambi á Flateyri

Níu konum í fiskvinnslunni Kambi á Flateyri var sagt upp störfum um síðustu mánaðamót. Ástæðan er sögð hagræðing. Hafa þær allar eins mánaðar uppsagnarfrest. Fyrirhugaðar uppsagnir komu ekki inn á borð verkalýðsfélagsins, þar sem ekki er um hópuppsagnir að ræða en mörkin miðast við 10 manns.

Hinrik Kristjánsson, framkvæmdastjóri Kambs, sagði í samtali við Svæðisútvarpið að verið væri að hagræða. Lítið framboð væri af þorski og útlitið ekki gott. Leigan á þorskkvóta hefði hækkað mjög og væri nú rétt undir 200 krónum kílóið.

Þá hefði Kambur selt dragnóta og netabátinn Egil Halldórsson. Báturinn var keyptur í haust og fylgdi honum þá rúmlega 220 tonna þorskkvóti. Báturinn var seldur til Grindavíkur með aflaheimildum.

Hinrik sagðist hafa keypt kvóta fyrir 1,6 milljarð í fyrra en með því að selja nú, væri verið að lækka skuldir. Hann hefði fengið gott verð fyrir bátinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert