Aurskriða féll á Sauðárkróki í morgun. Vatnsstokkur virkjunar brast og flæddi vatn, aur og leðja niður á Lindargötu. Björgunarsveitin Skagfirðingasveit vinnur nú að björgunar- og hreinsunarstörfum ásamt lögreglu og slökkviliði. Engin slys urðu á mönnum en samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg er eitt hús gjörónýtt og sex önnur eru með kjallara fulla af aur og drullu. Þrír bílar eru alveg á kafi. Að sögn mun rafstöðin hafa lent illa í flóðinu.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Sauðárkróki sprakk vatnsstokkur sem liggur frá stíflunni í Gönguskarðsárvirkjun fyrir ofan bæinn og tók um fimmtán mínútur að skrúfa fyrir vatnsrennslið úr stíflunni.
Verið var að vinna í húsgrunni í bænum er grafa tók í sundur háspennustreng og við það kom mikið högg á rafalana í virkjuninni sem slógu út og fylltist aðveitustokkurinn af vatni. Varð þrýstingurinn það mikill að stokkurinn sprakk.
„Við höfum verið að kalla til tryggingamenn og nú eru komin tæki til að þrífa þetta," sagði Björn Steinn Sveinsson varðstjóri lögreglunnar.
Húsin sem lentu í flóðinu eru við Lindargötu sem er nyrsta gatan í bænum þar á meðal er virkjanahúsið sjálft.