Brynhildur Þórarinsdóttir, rithöfundur, hlýtur Norrænu barnabókaverðlaunin í ár fyrir bækurnar Njálu, Eglu og Laxdælu sem komu út á árunum 2002-2006.
Norrænu barnabókaverðlaunin eru heiðursverðlaun sem samtök norrænna skólasafnakennara standa að. Þau hafa verið veitt frá árinu 1985, og þetta er í fjórða sinn sem íslenskur höfundur hlýtur verðlaunin. Árið 1992 hlaut Guðrún Helgadóttir þau, 2003 komu þau í hlut Kristínar Steinsdóttur, og 2005 fékk Ragnheiður Gestsdóttir þau.
Dómnefnd telur bækur Brynhildar vandaðar og skýrar endursagnir á þremur af þekktustu Íslendingasögunum. Sögurnar séu ekki aðeins merkur hluti íslenskrar menningar og sagnaarfs heldur sameiginlegur grundvöllur norrænnar menningar. Bækurnar séu aðgengilegar fyrir börn og persónur sagnanna stígi ljóslifandi fram. Fróðleiksmolar um sögusvið og sögutíma auka á gildi verkanna ásamt orð- og ljóðaskýringum. Dómnefnd álítur þessar bækur veita börnum innsýn í heim fornsagna, henta vel hvort sem er til kennslu eða yndislestrar og eiga þannig erindi til barna á öllum Norðurlöndunum.
Brynhildur Þórarinsdóttir er fædd 1970. Hún er M.A. í íslenskum bókmenntum og lauk kennsluréttindanámi árið 2005 við Háskólann á Akureyri, þar sem hún starfar nú. Hún hefur skrifað skáldsögur og smásögur fyrir börn og unglinga og hlotið viðurkenningar fyrir verk sín, m.a. íslensku barnabókaverðlaunin 2004 fyrir Leyndardóm ljónsins, Vorvinda IBBY 2003 fyrir Njálu, og verðlaun fyrir smásögu í samkeppni Félags móðurmálskennara. Brynhildur er bæjarlistamaður Akureyrar júní 2006-maí 2007.
Verðlaunin verða afhent í Danmörku í júlí næstkomandi og fulltrúi Íslands þar og formaður dómnefndar er Þóra Sjöfn Guðmundsdóttir, skólasafnskennari í Langholtsskóla.