Sérstök ályktun um málefni eldri borgara var samþykkt á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag. Þar segir m.a. að Sjálfstæðisflokkurinn muni beita sér fyrir því af fullum þunga, að tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga verði að fullu afnumin enda er um það sátt að þeir hafi skilað sínu til samfélagsins. Það sé bæði lífeyrisþegum og samfélaginu dýrmætt að eldri borgarar geti tekið virkan þátt á vinnumarkaði, hafi þeir vilja og starfskrafta til.
Þá er í ályktuninni m.a. lagt til, að almennar skerðingar í almannatryggingakerfinu lækki úr tæpum 40% í 35% og að skerðingar vegna lífeyrisgreiðslna verði endurskoðaðar. Áhersla er lögð á, að kjör þeirra ellilífeyrisþega, sem verst eru settir fjárhagslega, verði bætt og Sjálfstæðisflokkurinn vill beita sér fyrir því að ríkissjóður tryggi ellilífeyrisþegum að lágmarki 25.000 kr. á mánuði úr lífeyrissjóði til hliðar við greiðslur frá Tryggingarstofnun ríkisins.
Salome Þorkelsdóttir sagði m.a. í umræðum um ályktunina, að fundur starfshóps um málefni eldri borgara hafi verið svo fjölmennur að hann rúmaðist ekki í herberginu sem honum var ætlað. Vísaði hún til orða Péturs Blöndals, alþingismanns, á fundi starfshópsins, um að næsta kjörtímabil ætti að verða velferðarkjörtímabil Sjálfstæðisflokksins og hét á alla sjálfstæðismenn að vinna að því, að svo megi verða.
Pétur sagði í umræðum á landsfundinum, að þegar Sjálfstæðisflokkurinn kom að stjórn landsins árið 1991 hafi vél bátsins hökt, áhöfnin verið óánægð og farþegarnir farþegarnir sjóveikir. Sjálfstæðisflokkurinn hefði komið vélinni í gang, veitti atvinnulífinu athygli og það fór að ganga og gekk vel. Síðan hafi flokkurinn farið að huga að áhöfninni, lækkað skatta og gert hana káta og ánægða. Nú væri komið að farþegunum og nú ætti flokkurinn að sinna velferðinni en jafnframt huga áfram að vélinni og sjá um að hún gangi snurðulaust og tryggja einnig, að áhöfnin sé ánægð og kát.