Eftirlaunalögin verði endurskoðuð í heild sinni

Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.is
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, telur að endurskoða þurfi lög um eftirlaun æðstu ráðamanna landsins í heild sinni og aðlaga eftirlaunarétt þeirra betur að því sem almennt gerist hjá ríkisstarfsmönnum. Stefna eigi að því að lífeyrisgreiðslur til ráðamanna taki mið af þeim greiðslum sem viðkomandi hefur innt af hendi í lífeyrissjóð.

Ný lög um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara voru samþykkt skömmu fyrir áramót árið 2003. Óhætt er að segja að þau hafi verið harðlega gagnrýnd æ síðan, einna helst fyrir þá sök að réttur til eftirlauna fellur ekki niður þótt þeir fái launatekjur. Þannig geta t.d. fyrrverandi ráðherrar þegið eftirlaun jafnframt því sem þeir eru á launaskrá hjá ríkinu.

Ingibjörg Sólrún lýsti því yfir í setningarræðu sinni á landsfundi Samfylkingarinnar á föstudag að hún myndi beita sér fyrir því að eftirlaunalögunum yrði breytt enda hefði lagasetningin fært ráðamönnum eftirlaunarétt sem væri langtum meiri en aðrir hefðu.

Í samtali við Morgunblaðið í gær sagði Ingibjörg að flokkurinn hefði ekki tekið afstöðu til þess hvernig það yrði nákvæmlega gert en grundvallaratriði lægi fyrir; að eftirlaunakjörin yrðu færð nær því sem almennt gerðist. Flokksstjórn Samfylkingarinnar hefði málið nú til umfjöllunar. "Mér finnst það orka mjög tvímælis að tala um nákvæma útfærslu á slíkum breytingum. Við ákveðum þetta auðvitað ekki ein og sér heldur verður þetta að gerast í samvinnu við aðra á Alþingi," sagði hún.

Aðspurð sagði Ingibjörg að sjálfsagt gætu einhver álitamál skapast vegna þeirra sem þegar hefðu áunnið sér réttindi samkvæmt lögunum en lögunum mætti engu að síður breyta. "Einhvers staðar verður að draga línu í sandinn," sagði hún.

Í hnotskurn
» Með lögum sem voru samþykkt í árslok 2003 var eftirlaunaréttur æðstu ráðamanna, þingmanna og hæstaréttardómara rýmkaður umtalsvert.
» Þeir geta m.a. farið á eftirlaun 55 ára gamlir, að ákveðnum skilyrðum um starfsaldur uppfylltum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert