Rúm 43% myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn og 22,3% Samfylkinguna ef gengið yrði til kosninga nú samkvæmt könnun Fréttablaðsins sem birt var í gær. Vinstri græn fengju tæp 17% atkvæða, 8,6% segjast myndu kjósa Framsóknarflokkinn og 5,8% Frjálslynda flokkinn. Íslandshreyfingin mælist með 2,3% fylgi og 0,8% segjast myndu kjósa Baráttusamtök eldri borgara og öryrkja. Hvorugt nýju framboðanna kæmu manni á þing samkvæmt könnuninni. Hringt var í 800 manns 14. apríl. 59,9% tóku afstöðu en 31,3% voru óákveðin.