Íslendingur óhultur eftir árás í tækniskólanum í Virginíu

Einn Íslendingur, Dagmar Kristín Hannesdóttir, er í háskólanum í Blacksburg í Virginíu þar sem maður hóf skothríð í morgun. Að sögn Fox sjónvarpsstöðvarinnar skaut maðurinn 31 til bana og særði 28 áður en hann lét sjálfur lífið. Í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins sagði Dagmar að hún væri óhult. Árásin var gerð í verkfræðibyggingu háskólans en Dagmar var stödd í sálfræðibyggingunni sem er nokkru fjær.

Dagmar, sem er á fjórða og síðasta ári í doktorsnámi sínu í klínískri barnasálfræði í skólanum, segist hafa verið að flytja fyrirlestur í einni skólastofu í morgun þegar skotárásin hófst. Hún segir að yfirmaður deildarinnar hafi komið inn í skólastofuna og sagt öllum, að þeir mættu ekki fara út úr byggingunni. Þeim hafi verið að sagt að læsa sig inni í stofum eða skrifstofum byggingarinnar. „Sem við gerðum og við vorum þar þangað til okkur var hleypt út. Við vorum þar í um klukkutíma eða einn og hálfan,“ segir hún.

Aðspurð segist hún enn vera að átta sig á því hvað hafði gerst. „Ég áttaði mig ekki á því hvað þetta var mikið fyrr en ég kom út úr skólanum. Það voru allir læstir inni og enginn mátti gera neitt eða fara neitt.“

Dagmar segir vopnaða lögreglumenn hafa umkringt bygginguna. Hún segist ekki vita til þess að neinn af vinum og kunningjum hennar í skólanum hafi særst eða látið lífið í árásinni. Eiginmaður vinkonu sinnar hafi verið á annari hæð verkfræðibyggingarinnar þegar atburðurinn átti sér stað. Sérsveitarmenn hafi komið inn í skólastofuna í leit að byssumanninum og skipað öllum að setja upp hendurnar. Fólkið var síðan læst inni í stofunni en sérsveitin hleypti þeim út þegar gengið hafði verið úr skugga um að byssumaðurinn væri ekki inni í stofunni.

Hún segir að í síðustu viku hafi skólanum borist sprengjuhótanir en hún segist ekki vita hvort þær tengist árásinni í dag.

Skólanum hefur verið lokað og þá verður ekkert skólahald á morgun vegna atburðarins í dag.

Frá aðgerðum lögreglu á skólalóðinni í morgun.
Frá aðgerðum lögreglu á skólalóðinni í morgun. AP
mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka