Verðlagseftirlit ASÍ hefur undanfarið fylgst með því hvernig lækkanir á virðisaukaskatti og vörugjöldum þann 1. mars sl. skila sér út í verðlag til neytenda.
ASÍ birti í dag niðurstöður úr viðamiklum verðmælingum í fimm verslunarkeðjum: Hagkaupum, Nóatúni, Kjarval og klukkubúðunum 10-11 og 11-11. Til þess að fylgjast með verðþróun í verslunum fyrir breytinguna hóf verðlagseftirlitið verðmælingar í desember 2006.
Frá desember 2006 til febrúar 2007 var vegin verðhækkun í þessum verslunarkeðjum mest í verslunum 10-11, 4,3%. Í Kjarval hækkaði verð um 2,7% milli desember og febrúar og í 11 - 11 um 2,1%. Vegin verðbreyting í Hagkaupum var 1,6% á tímabilinu og minnst hækkun var í verslunum Nóatúns eða 1,3% frá því í desember og fram í febrúar.
Þegar verðbreytingar eru skoðaðar á tímabilinu frá febrúar og fram í mars þegar virðisaukaskattur og vörugjöld á matvörum voru lækkuð má sjá að verðlækkanir í þeim verslunarkeðjum sem hér eru skoðaðar voru á bilinu 4,4 – 8,5%. Vegin verðlækkun var minnst i verslunum 10-11 eða 4,4% milli mánaða. Mest verðlækkun var í 11-11 þar sem vegin verðlækkun var 8,5% milli febrúar og mars.