Lögreglan á Akranesi þurfti í síðustu viku, að aðstoða ölvaðan mann sem hafði dottið í götuna. Hann var heldur illa til reika og hafði m.a. hlotið skurð á enni. Lögreglumenn með hann á sjúkrahúsið þar sem skurðurinn var saumaður saman. Að því loknu var honum ekið heim.
Á heimasíðu lögreglunnar segir, að maðurinn hafi verið afar þakklátur og sagðist vilja þakka lögreglumönnum með kossi, síðar, þegar hann væri kominn með nýjar tennur en báðir fölsku tanngarðarnir höfðu brotnað við fallið.