Íbúar Blönduóss sem búa á Brekkunni, bæjarhlutanum fyrir vestan Blöndu, hafa safnað undirskriftum um að skora á bæjaryfivöld að ljúka endurbótum á Þingbrautinni. Segir í undirskriftaskjalinu, að vegurinn sé nánast ófær og nú þegar hafi hlotist talsvert tjón á dekkjum og bílum. „Langlundargeð okkar er þrotið. Við krefjumst úrbóta strax," segir ennfremur.
Sigurlaug Markúsdóttir íbúi á brekkunni og einn af forsvarsmönnum undirskriftarsöfnunarinnar segir, að nánast allir íbúar sem búa á brekkunni, en þeir eru um 20% bæjarbúa, hafi skrifað undir. Ætlunin er að afhenda bæjarstjórn undirskriftirnar á bæjarstjórnarfundi á morgun kl. 17.