Eftir einn ei aki neinn

Það sannaðist enn einu sinni í dag, í þetta skiptið á karlmanni sem var á leið til Hafna, að menn eiga ekki að aka bíl hafi þeir drukkið áfengi. Maðurinn missti nefnilega stjórn á bíl sínum og festi hann fyrir utan veg. Þar sat hann fastur þegar lögregluna á Suðurnesjum bar að garði.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu kom vegfarandi að bíl mannsins og hugðist aðstoða hann við að draga hann aftur upp á veg. Þegar hann varð var við að ökumaðurinn var í annarlegu ástandi runnu á hann tvær grímur og ákvað þegar í stað að hringja á lögreglu sem brást skjótt við. Í ljós kom að ölvaði ökumaðurinn, karlmaður á fimmtugsaldri, hafði þegar verið sviptur ökuréttindum. Hvorki hann né farþegi í bílnum meiddust við útafakasturinn og bíllinn er óskemmdur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert