Jón Sigurðsson, iðnaðar-og viðskiptaráðherra, greindi ríkisstjórninni í dag frá fundi sínum og forsvarsmanna Alcan sem haldin var í iðnaðarráðuneytinu í gær. Að sögn Jóns var ekkert óvenjulegt við fund hans með fulltrúum Alcan, né það að greint var frá honum á ríkisstjórnarfundi í morgun.
„Við fundum nokkrum sinnum á ári með þeim aðilum sem óska þess hverju sinni og í gær var farið yfir stöðu fyrirtækisins í kjölfar kosninganna í Hafnarfirði," sagði Jón í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins. Hann sagði að engar ákvarðanir um málið hafi verið teknar á ríkisstjórnarfundi í morgun. Aðeins hafi um upplýsingagjöf til samráðherra sinna verið að ræða.
Aðspurður hvort einherjar óskir hafi komið fram frá forsvarsmönnum Alcan, sagðist Jón ekki hafa umboð til að greina frá því, fyrirtækið yrði sjálft að gera það.
Þetta er í fyrsta sinn sem fulltrúar Alcan funda með iðnaðarráðherra eftir úrslit kosninganna um álverið í Hafnarfirði.
Forsvarsmenn Alcan, hafa líka fundað með fulltrúum Landsvirkjunar og bæjarstjóranum í Hafnarfirði og samkvæmt upplýsingum Fréttavefjar Morgunblaðsins, eru menn að átta sig á stöðunni eftir kosningarnar og hvaða kostir eru í stöðunni.
Alcan hefur ekki langan tíma til stefnu þar sem rammasamningar við Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun renna út í lok júní í sumar. Það þýðir með öðrum orðum að Alcan þarf að ákveða sig hvort þeir kaupa orku af umræddum aðilum fyrir þann tíma. Ef Alcan ákveður að kaupa orku af þessum aðilum, gilda þeir samningar til 20 ára, óháð því hvort af stækkun verði eður ei.