Konu kippt upp úr gjótu

Slökkviliðsmönnum tókst að bjarga konu sem hafði fest sig í gjótu í brimgarðinum við Ánanaust í Vesturbæ Reykjavíkur í kvöld. Að sögn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins barst tilkynning um konuna um kl. 21:30 í kvöld. Slökkviliðinu tókst svo að ná konunni úr gjótunni um hálftíma síðar.

Konan, sem er á sextugsaldri, neitaði að vera flutt á sjúkrahús, en hún var lítillega rispuð eftir hrakfarir sínar. Að sögn slökkviliðsins sagðist konan hafa verið að sækja poka sem hún hafði misst ofan í gjótuna þegar hún festist, en undir það síðasta sást aðeins glitta í iljarnar á henni.

Sem fyrr segir báru björgunaraðgerðir árangur. Nokkrir fílefldir slökkviliðsmenn náðu að smeygja belti utan um konuna og toga hana út er þeir héldu um ökklana á henni.

Þegar konan hafði fengið skóna sína aftur þakkaði hún fyrir sig og rölti heim á leið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert