Rekstrarniðurstaða Hafnarfjarðar neikvæð á síðasta ári

Frá Hafnarfirði.
Frá Hafnarfirði. mbl.is/Kristinn

Rekstur Hafnarfjarðarbæjar fyrir fjármagnsliði er jákvæður um 805 milljónir krónur á árinu 2006 en rekstrarniðurstaða ársins var neikvæð um 833 milljónir króna samanborið við 1122 milljón króna jákvæða niðurstöðu árið 2005. Segir Hafnarfjarðarbær, að ástæðan fyrir þessari breytingu sé að fjármagnsliðir voru neikvæðir um 1639 milljónir króna, fyrst og fremst vegna lækkunar krónunnar á árinu.

Ársreikningar Hafnarfjarðarbæjar voru teknir til fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi í dag. Í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ segir, að almennur rekstur bæjarfélagins sé í góðu samræmi við áætlanir. Frávik rekstrargjalda frá áætlun sé 0,15% í A hluta og 1% í samanteknum A og B hluta. Tekjur hafi lækkað um 0,9% frá áætlun í A hluta en um 0,3% í samanteknum A og B hluta. Veltufé frá rekstri nam 1623 milljónum króna sem samsvarar 15,3% af rekstrartekjum.

Fjárfestingar ársins námu 3322 milljónum króna. Heildarskuldir bæjarfélagsins námu í árslok 18.900 milljónum króna og hækkuðu um 3430 milljónir króna á milli ára. Eignir námu 24.080 milljónum króna og jukust um 2600 milljónir króna á milli ára. Eigið fé lækkaði á árinu um 830 milljónir króna og nam 5180 milljónum króna.

Íbúar bæjarfélagsins voru 23.674 um síðustu áramót og fjölgaði um 1223 samanborið við 509 á árinu 2005. Fjölgunin samsvarar 5,4% sem er ein mesta fjölgun íbúa í Hafnarfirði á einu ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert