Vinnuframlag útlendinga verður meginforsenda hagvaxtar

Samkvæmt mannfjöldaspá Samtaka atvinnulífsins mun Íslendingum fjölga í um 400 þúsund árið 2050. Samtökin áætla hins vegar að Íslendingum á vinnumarkaði muni fjölga tiltölulega hægt á komandi árum og fjölgunin stöðvast eftir u.þ.b. tvo áratugi. Því verði vinnuframlag erlends starfsfólks ein meginforsenda hagvaxtar.

Í nýju riti Samtaka atvinnulífsins, Eldri þjóð – ný viðfangsefni, er bent á, að sífellt mikilvægara verði að stuðla að aukinni skilvirkni og framleiðni. Hægur vöxtur vinnuafls kalli ekki aðeins á lengri starfsævi, heldur þurfi einnig að fá yngra fólk fyrr inn á vinnumarkaðinn. Aukin samþjöppun náms í grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum gæti stuðlað að því. SA hafa því lagt til að nemendur hefji nám einu ári fyrr í framhaldsskóla og tveimur árum fyrr á háskólastigi.

Samkvæmt mannfjöldaspánni verur aldurssamsetning íslensku þjóðarinnar árið 2050 mjög frábrugðin því sem nú er. Einstaklingar á eftirlaunaaldri, 65 ára og eldri, verða 27% íbúanna í stað 12% nú og munu telja 109 þúsund manns. Fjöldi Íslendinga 80 ára og eldri mun fimmfaldast fram til 2050, úr 9 þúsund í 45 þúsund.

Gert er ráð fyrir því að árið 2050 verði ævilíkur karla við fæðingu 86,5 ár og kvenna tæp 90 ár og lenging meðalævi frá því sem nú er verði þannig 7,5 ár hjá körlum og 7 ár hjá konum. Þá er útlit fyrir að það tímabil sem fólk nýtur lífeyris lengist um tæp 30%.

Í ritinu segir, að brýnt sé að afnema allar hindranir fyrir atvinnuþátttöku eldri starfsmanna og hækkun eftirlaunaaldurs hljóti að koma til álita þar sem fólk á aldrinum 65-70 ára búi við mun betri heilsu en áður og sú þróun muni halda áfram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert