Dráttarbáturinn Magni kom með flutningaskipið Wilson Muuga til Hafnarfjarðar laust eftir klukkan 23 í kvöld. Flutningaskipið var dregið af strandstað við Hvalsnes um klukkan 17:30 í dag en það strandaði í desember á síðasta ári. Siglingin fyrir Garðsskaga gekk vel og er Wilson Muuga nú í suðurhöfninni í Hafnarfirði skammt frá stóru flotkvínni sem þar er.
Um 10–15 menn hafa dvalið meira eða minna í eða við skipið undanfarnar vikur og unnið við að þétta tanka og lestargólf skipsins og auk þess að létta það eins mikið og mögulegt var.