Wilson Muuga komið á flot

Dráttarbáturinn Magni dró Wilson Muuga á flot nú síðdegis.
Dráttarbáturinn Magni dró Wilson Muuga á flot nú síðdegis. mbl.is/Golli

Flutningaskipið Wilson Muuga var dregið á flot af strandstað við Hvalsnes nú síðdegis og er nú um 1 mílu frá landi. Mun dráttarbáturinn Magni draga skipið til Hafnarfjarðar í kvöld. Að sögn Guðmundar Ásgeirssonar, forstjóra Nesskips, sem er um borð í Wilson Muuga, gekk vel að draga skipið á flot þótt litlu hafi mátt muna en tóg flæktist í skrúfunni á einum dráttarbátnum.

„Það stóð tæpt en það hafðist,“ sagði Guðmundur í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins. Hann segir einn dráttarbátana hafa fengið í skrúfuna. „Við vorum í smá basli með það en það tókst sem betur fer ágætlega.“

Hann segir það eiga eftir að koma í ljós hvað verði gert við skipið þegar það verður komið til Hafnarfjarðar.

Guðmundur hefur unnið að því undanfarna 17 daga ásamt u.þ.b 15 öðrum að undirbúa skipið fyrir aðgerðirnar. Upphaflega stóð til að reyna draga skipið af strandstað á stórstraumsflóði 16.-18. maí nk. „Það var upphaflega meiningin en svo kitlaði okkur að reyna þetta núna út af því það var stórstraumt [...] Það var bara draumur í dós að ef við ynnum 16-18 tíma á dag að þá næðum við því. Það hafðist.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert