Atvinnuleysi mældist 2% á Íslandi á fyrsta ársfjórðungi þessa árs samkvæmt tölum sem Hagstofan hefur sent frá sér. Atvinnuleysi fer því minnkandi en atvinnuleysi mældist 2,4% á sama tíma í fyrra. Starfandi fólki hefur fjölgað um 9.300 síðan á síðasta ári. Á fyrsta ársfjórðungi 2007 voru að meðaltali 3.500 manns án vinnu og í atvinnuleit eða 2% vinnuaflsins á Íslandi. Atvinnuleysi mælist jafnt hjá körlum og konum. Þegar litið er til aldurs var atvinnuleysið mest meðal fólks á aldrinum 16-24 ára, eða 6,9%.
Á fyrsta ársfjórðungi 2006 mældist atvinnuleysi 2,4%. Atvinnuleysi karla var þá 2,2% en 2,5% hjá konum. Atvinnuleysi var þá einnig mest meðal fólks á aldrinum 16-24 ára eða 7,7%.
Af þeim sem töldust atvinnulausir á fyrsta ársfjórðungi 2007 voru 500 búnir að finna vinnu sem hefst síðar, eða 15,1%, 1.400 manns eða 39,6% voru búnir að leita skemur en einn mánuð að vinnu og 600 manns, eða 17,8% voru búnir að leita lengur en 6 mánuði.
Fjöldi starfandi á fyrsta ársfjórðungi 2007 var 172.800 manns og fjölgaði um 9.300 frá sama tíma ári áður. Á vinnumarkaði voru alls 176.300 manns sem jafngildir 82,2% atvinnuþátttöku.
Atvinnuþátttaka karla var 86,2% en kvenna 77,9%. Til þeirra sem eru á vinnumarkaði teljast bæði þeir sem eru starfandi og atvinnulausir. Fólk telst vera starfandi ef það hefur unnið eina klukkustund eða meira í viðmiðunarviku könnunar eða verið fjarverandi frá starfi sem það gegnir að öllu jöfnu.
Á fyrsta ársfjórðungi 2006 mældist atvinnuþátttaka 81,1%. Hjá körlum var atvinnuþátttaka 84,6% en 77,5% hjá konum. Fólki á vinnumarkaði fjölgaði um 8.800 manns frá fyrsta fjórðungi fyrra árs til jafnlengdar á þessu ári, mest í aldurshópnum 25-54 ára eða um 6.100 manns.
Á fyrsta ársfjórðungi 2007 var meðalfjöldi vinnustunda 41,5 klst. hjá þeim sem voru við vinnu í viðmiðunarvikunni, 47,1 klst. hjá körlum en 34,7 klst. hjá konum. Meðalfjöldi vinnustunda hjá þeim sem voru í fullu starfi var 47,3 klst., 50,2 klst. hjá körlum en 42 klst. hjá konum. Meðalfjöldi vinnustunda hjá þeim sem voru í hlutastarfi voru 23,5 klst., 21,5 klst. hjá körlum en 24,1 klst. hjá konum.
Á fyrsta ársfjórðungi 2006 var fjöldi vinnustunda 41,2 klst., 46,3 klst. hjá körlum en 35,2 klst. hjá konum. Þeir sem voru í fullu starfi unnu 47,2 klst. að jafnaði en þeir sem voru í hlutastarfi unnu 23,8 klst.