Fullyrðingar um mengun frá olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum standast ekki

Árni Finnsson segir ráðherra ekki vita af mengunarþættinum í tengslum …
Árni Finnsson segir ráðherra ekki vita af mengunarþættinum í tengslum við hugmyndir um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum. Það sé óprúttin leikur að veifa 500 störfum fyrir framan fólk þegar starfsemin uppfyllir ekki alþjóðlegar skuldbindingar Íslendinga Mynd/ÞÖK

„Olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum gæti ekki fallið undir hið íslenska ákvæði sem veitir málmbræðslufyrirtækjum á Íslandi undanþágu fyrir losun 8 milljóna tonna af koltvísýringi á tímabilinu 2008 – 2012." Þetta segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands. Hann sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins það vera ákaflega slakt að ráðherrar viti ekki af mengunarþættinum í þessu verkefni. Það hafi berlega komið í ljós þegar þeir spyrtu áætlanir um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum við aðrar lausnir í atvinnumálum Vestfirðinga í gær.

„Það er óprúttinn leikur að veifa 500 nýjum störfum framan Vestfirðinga í ljósi þess að sú starfsemi um ræðir stenst ekki skuldbindingar Íslands samkvæmt Kyoto-bókuninni “ segir í yfirlýsingu sem Árni sendi út frá sér í dag. „Sömuleiðis er það verulega slakt að æðstu ráðamenn þjóðarinnar virðast hvorki meðvitaðir um þær skuldbindingar né hitt að ríkisstjórnin hefur markað sér loftslagsstefnu sem felur í sér að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda um 50-75% fyrir 2050. Talsmenn hugmynda um byggingu olíuhreinsunarstöðvar á Vestfjörðum virðast lítt eða alls ekki upplýstir um mengun frá slíkri stöð. Þær yfirlýsingar sem frá þeim hafa komið standast ekki og stangast á."

Í yfirlýsingu Árna bendir hann á að fram hafi komið að gert er ráð fyrir framleiðslu er nemur 150 þúsund tunnum á dag. Miðað við framleiðslu 365 daga á ári gerir það nærri 8,5 milljónir tonna ársframleiðslu. Samkvæmt sænskum staðli má gera ráð fyrir að 120 þúsund tonn af koltvísýringi (CO2) myndist við hreinsun á 1 milljón tonna af olíu. Samkvæmt því yrði losun koltvísýrings vegna olíuhreinsunarstöðvar á Vestfjörðum með 8,5 milljón tonna framleiðslugetu ríflega ein milljón tonn af koltvísýringi á ári, eða 1.020.000 tonn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert