Reykjavíkurflugvöllur sagður vera á mjög góðum stað frá sjónarhóli flugsamgangna og flugrekenda

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Þorkell

Skýrsla samráðsnefndar samgönguráðherra og borgarstjóra um úttekt á framtíðarkostum Reykjavíkurflugvallar verður tilbúin í lok næstu viku og stefnt að birtingu hennar þá. Meðal helstu niðurstaðna nefndarinnar er að núverandi flugvöllur í Vatnsmýri sé á góðum stað fyrir flugsamgöngur en að flugvallarsvæðið sé dýrmætt sem byggingarland.

Verkefni nefndarinnar var að vinna flugtæknilega, rekstrarlega og skipulagslega úttekt á Reykjavíkurflugvelli og fékk hún innlenda og erlenda aðila til að vinna ákveðin svið úttektarinnar, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá samgönguráðuneytinu.

Grunnkosturinn er núverandi flugvöllur óbreyttur nema hvað norðaustur-suðvestur braut verður lögð niður. Aðrir kostir sem athugaðir voru eru þrjár tillögur um breytta legu flugbrauta í Vatnsmýri, sem nefndir eru A-kostir. Nýting vallarins er talin geta verið 98% eða hin sama og núverandi völlur með tveimur brautum. Í þessum kostum er gert ráð fyrir nýjum flugvelli í Afstapahrauni fyrir einka- og kennsluflug. Þrír aðrir kostir eru nefndir B-kostir: Nýir flugvellir á Hólmsheiði eða Lönguskerjum eða að innanlandsflug yrði eingöngu rekið frá Keflavíkurflugvelli. Nýting flugvallar á Hólmsheiði er talin geta orðið 95% en er óviss þar sem rannsóknir hafa ekki farið fram. Á Lönguskerjum er nýting talin verða 98%. Ekki er gert ráð fyrir byggingu flugvallar í Afstapahrauni nema innanlandsflugið flytjist til Keflavíkurflugvallar. Í því tilviki er gert ráð fyrir nýjum varaflugvelli á Bakka í Landeyjum.

Helstu niðurstöður úttektarinnar eru eftirfarandi:

    1. Núverandi flugvöllur er á mjög góðum stað frá sjónarmiði flugsamgangna og flugrekenda. Starfrækja má flugvöllinn með góðum árangri þó að brautum sé fækkað úr þremur í tvær og flugvallarsvæðið minnkað nokkuð.

    2. Flugvöllur með einungis einni braut er ekki nothæf lausn vegna mikils og breytilegs vindafars sem ríkir á svæðinu.

    3. Flugvallarsvæðið í Vatnsmýrinni er mjög dýrmætt sem byggingarland vegna staðsetningar.

    4. Þjóðhagslegir útreikningar sýna að B-kostirnir skila miklum ábata, mun meiri en A-kostirnir.

    5. Hólmsheiði kemur þjóðhagslega best út samkvæmt kostnaðar- og ábatagreiningu og þar er hagur hagsmunaaðila í allgóðu jafnvægi þó að nokkur kostnaður leggist á íbúa landsbyggðarinnar og flugrekendur. Gera verður fyrirvara um þennan kost að því er varðar nýtingu flugvallarins vegna hæðar í landi, 135 metrar, og nálægðar við fjöll en rannsóknir á áhrifum þessara þátta á veðurfar og flugskilyrði skortir.

    6. Örlítið minni þjóðhagslegur ábati er af því að nýta Keflavíkurflugvöll en Hólmsheiði til innanlandsflugs. Útkoma hagsmunaaðila er á hinn bóginn í meira ójafnvægi og verða íbúar landsbyggðarinnar fyrir umtalsverðum kostnaði. Þetta er lakasti kosturinn fyrir flugrekendur. Þessi kostur veldur umtalsverðri afturför í flugsamgöngum innanlands og er talinn geta valdið 19,4% fækkun farþega í innanlandsflugi.

    7. Löngusker sýna minnstan þjóðhagslegan ábata af B-kostunum, 11-13% minni ábata en hinir. Þessi kostur gefur lökustu útkomuna fyrir ríkissjóð en hagur annarra hagsmunaaðila er í góðu jafnvægi. Hér skortir einnig veðurfarsathuganir en líklegt er að veðurfar á Lönguskerjum sé svipað og í Vatnsmýrinni. Umhverfisáhrif eru margvísleg í þessum kosti og gætu umhverfismál orðið umfangsmikil og tímafrek.

Um samgöngumiðstöð í Vatnsmýri segir í skýrslunni að bygging hennar sé brýn og vel gerleg þótt óvissu gæti um framtíð flugvallar í Vatnsmýri. Sú óvissa kalli á vandaðan undirbúning og mikinn sveigjanleika í byggingunni.

Tekið er fram í skýrslu nefndarinnar að henni hafi ekki verið falið að koma með tillögu um ákveðna lausn eða lausnir heldur að búa til grundvöll fyrir formlegar viðræður aðila um framtíð flugstarfsemi í Vatnsmýri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert