SAF: Verðbreytingar veitingahúsa hægfara ferli

Samtök ferðaþjónustunnar hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna umræðu um verðlagningu veitingastaða og nýútkomna skýrslu þar sem fram kemur að verðbreytingar veitingahúsa séu hægfara ferli og að samanburður við matvöruverslanir lýsi oft nokkurri vanþekkingu. Yfirlýsing samtakanna fer í heild sinni hér á eftir.

Vegna umræðu um verðlagningu veitingastaða og nýútkomna skýrslu Neytendastofu vilja Samtök ferðaþjónustunnar taka fram eftirfarandi:
Umræðan hefur snúist um að ekki hafi allir veitingastaðir skilað lækkun virðisaukaskatts og heildarlækkun vísitölunnar sé þar með lægri en hún ætti að vera. Gjarnan er útkoman borin saman við matvöruverslanir sem lýsa nokkurri vanþekkingu.

Verðbreytingar veitingahúsa eru hægfara ferli og er þar hinn stóri munur á veitingahúsum og matvöruverslunum. Matvöruverslanir breyta verðum daglega og eru þar af leiðandi ekki með uppsafnaða hækkunarþörf. Algengt er að veitingastaðir breyti verðum á 4-6 mánaða fresti, og því ljóst að 1. mars s.l. voru margir veitingastaðir með uppsafnaða hækkunarþörf sem blandaðist saman við þá lækkun sem lækkun virðisaukaskattsins gaf tilefni til.

Kostnaður hefur hækkað umtalsvert síðustu mánuði, sem dæmi má nefna að kjöt og fiskur hækkaði mjög mikið síðasta hálfa árið og hafa sumar fisktegundir hækkað um tugi prósenta. Launaskrið hefur verið mikið vegna manneklu en u.þ.b. 40% af verði matar á veitingahúsum er launakostnaður.

Vegna umfjöllunar í Morgunblaðinu í morgun um að gististaðir hefðu lækkað verð 1. mars, en síðan hefði það hækkað aftur er brýnt að taka fram að nú í apríl er komin ný verðskrá á flestum gististöðum en vorið er dýrari árstími en veturinn og því ólíku saman að jafna.

Samtök ferðaþjónustunnar hvetja til upplýstrar umræðu um þessi mál en gríðarleg samkeppni á veitingastaðamarkaði leiðir til þess að allra leiða er leitað til þess að halda verði í skefjum á hverjum tíma. Miklar kostnaðarhækkanir í þjóðfélaginu eru eilíf baráttumál og þarf að taka með inn í þessa umræðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert