Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt mann á þrítugsaldri í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að stinga annan mann í hægri upphandlegg og valda honum þannig alvarlegu líkamstjóni í Vestmannaeyjum í febrúar á síðasta ári. Þá er maðurinn dæmdur til að greiða allan málskostnað vegna málsins.
Fram kemur í dómnum að ekki teljist sannað hver hafi haldið um hnífinn þegar hann stakkst í brotaþola og ósannað sé að fyrir ákærða hafi beinlínis vakað að valda tjóni með háttsemi sinni. Hann hafi hins vegar viðurkennt að hafa farið inn í eldhús og tekið hníf úr hnífastandi og að telja verði að honum hafi ekki getað dulist að með því að halda hnífi, með 21 cm löngu blaði, í brjósthæð í sömu andrá og stefndi í átök væri langlíklegast að tjón hlytist af.