Gífurlegt álag var á Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í gær þegar stórbruninn varð í tveimur gömlum húsum við Lækjargötu og Austurstræti í gær. Allt tiltækt lið var kallað út og þegar mest var voru 110 manns að störfum við slökkvistarf og sjúkraflutninga.
Notaðar voru hátt í 300 fyllingar af lofti sem myndi duga reykkafara í köfun í tíu og hálfan sólarhring. Á vefsíðu slökkviliðsins segir að um 60 manns hafi farið í reykköfun í gær og margir þurftu að fara þrisvar til fjórum sinnum í köfun en það reynir mjög á þrek manna. Á meðan slökkvistarfið stóð sem hæst sinnti SHS 38 sjúkraflutningum, þar af sjö í efsta forgangi.