Hátíðahöld í tilefni af sumardeginum fyrsta fóru fram með hefðbundnum hætti víðast hvar á landinu í dag. Vel viðraði til útivistar þótt víða væri kalt og nýttu margir daginn til gönguferða. Þá tóku margir mótorhjólin fram í tilefni dagsins og m.a. fóru um 300 mótorhjólakappar frá höfuðborgarsvæðinu í hópferð á Skagann. Umferð á þjóðvegum var þó með minna móti sögn lögreglu og gekk hún víðast hvar vel. Árekstur varð þó á Þorlákshafnarvegi við afleggjarann að Selvogi um klukkan fjögur í dag. Einhver meiðsl urðu á fólki en þau eru ekki talin hafa verið mjög alvarleg.