Hrifsaði veski af öldruðum konum

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á þrítugsaldri til átta mánaða fangelsisvistar fyrir líkamsárás, nytjastuld, gripdeildir, umferðarlagabrot og brot á lögum um ávana- og fíkniefni. Með brotum sínum rauf maðurinn skilorð en hann á að baki sakaferil sem rekja má aftur til ársins 1997. Honum var að auki gert að greiða 312 þúsund krónur í sakarkostnað.

Meðal þess sem finna má í fjölmörgum liðum ákærunnar eru ófyrirleitin þjófnaðarbrot og gripdeildir þar sem maðurinn stal t.a.m. úr vösum grunlausra gesta líkamsræktarstöðvar og keyrði í einu tilviki burtu á bíl eins þeirra. Einnig hrifsaði hann veski af tveimur öldruðum konum og stal bakpoka af ferðamanni.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir m.a. að maðurinn hafi átt við vímuefnavanda að stríða sem tengist brotum hans að verulegu leyti. Hann hafi lagt fram gögn sem sýni að hann sé að reyna að vinna bug á vanda sínum og sé kominn í vinnu. Hins vegar var ekki hægt að líta fram hjá ítrekuðu skilorðsrofi.

Héraðsdómarinn Ásgeir Magnússon kvað upp dóminn. Einar E. Laxness, fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, flutti málið af hálfu ákæruvaldsins og Sveinn Andri Sveinsson varði manninn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert